

Fjallkirkjan
1.290 kr.Fjallkirkjan – sagnabálkurinn um Ugga Greipsson – er höfuðverk Gunnars Gunnarssonar og eitt af meistaraverkum norrænna nútímabókmennta. Þýðing Halldórs Laxness birtist upphaflega á íslensku fyrir rúmlega hálfri öld og hefur verið ófáanleg um langt skeið. Gunnar Gunnarsson yngri myndskreytti Fjallkirkjuna, en margar af myndum hans við söguna birtast nú á bók í fyrsta sinn.
„Hugblærinn er hrifvaldur þessarar bókar frá upphafi til enda. Og þessum blæ, sem sífelt skiftir lit eftir efninu, er í bókinni ætlað hlutverk sem önnur áhrifabrögð gegna í venjulegri sagnagerð, þeirri sem bókvísi mundi kalla sígilda. Þetta hugarástand sem höfundur er í sjálfur, og vekur um leið í hverjum næmum lesanda, ber einkenni þess sem á voru máli mundi vera kent við seið og töfur: „fögur var sú kveðandi að heyra.“
Hinn einstæði hæfileiki skáldsins til að ljá dauðu sem kviku sinn sérstaka andblæ, mér er nær að segja andrúmsloft, er leyndardómur þessa skáldskapar og um leið svar við því, hverju sæti að slíkur höfundur varð höfuðskáld.“
Halldór Laxness

Hvítt haf
990 kr.Hvítt haf lýsir á meistaralegan hátt örlagaríkum tíma í sögu Noregs. Bókin er sjálfstætt framhald sögunnar Hin ósýnilegu sem hefur hlotið mikið lof.
Árið 1944 hafa Þjóðverjar hertekið Noreg. Ingrid snýr aftur til æskustöðva sinna á Barrey sem hefur verið auð og yfirgefin. Hún býr sig undir kulda og einsemd vetrarins því hún þekkir eyjalífið. Fljótlega kemst hún þó að því að hún er ekki ein á eyjunni og á óvæntan hátt kemur ástin inn í líf hennar nokkrar kaldar vetrarvikur.
Roy Jacobsen hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars tvisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Árið 2017 hlaut hann, fyrstur norskra rithöfunda, tilnefningu til alþjóðlegu Man Booker-verðlaunanna fyrir Hin ósýnilegu, en sú bók hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og kom út á íslensku 2019.
Jón St. Kristjánsson þýddi.

Hin ósýnilegu
990 kr.Hin ósýnilegu er sterk og áhrifamikil saga um horfinn veruleika, hugdirfsku og fagra en óblíða náttúru.
Ingrid elst upp á lítilli eyju við strönd Norður-Noregs snemma á síðustu öld. Heimur hennar er Barrey og fjölskyldan – foreldrar hennar, afi og frænka, litli frændinn, húsdýrin, fuglarnir, fiskarnir, stormar, ís og sjór. Einangruð veröld þar sem gestir gægjast þó af og til inn. Lífsbaráttan er hörð en fólkið á sínar vonir og framtíðardrauma. Faðirinn vill koma upp bryggju til að tengja eyna við umheiminn en náttúruöflin eru á öðru máli. Og svo taka óblíð örlögin í taumana og Ingrid þarf að berjast til að bjarga eynni sem hún hélt að hún gæti yfirgefið.
Norski rithöfundurinn Roy Jacobsen hefur tvívegis hlotið tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir verk sín. Hin ósýnilegu var tilnefnd til alþjóðlegu Man Bookerverðlaunanna 2017, fyrst norskra bóka, og hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál.
Jón St. Kristjánsson þýddi.

Rigning í nóvember
990 kr.Kona fer í ferðalag austur á land eftir að maðurinn hennar yfirgefur hana vegna annarrar konu. Með í för er fimm ára heyrnarlaus sonur vinkonu hennar en tilgangur ferðarinnar er að finna stað fyrir sumarbústað sem hún hefur unnið í happdrætti.
Síðasta skáldsaga Auðar Övu, Afleggjarinn hefur farið sannkallaða sigurför um heiminn, meðal annars hlotið ein tólf virt bókmenntaverðlaun í Frakklandi.

Hungurleikarnir
1.290 kr.Á rústum staðar sem eitt sinn hét Norður-Ameríka er ríkið Panem; höfuðborgin Kapítól umkringd tólf umdæmum sem hvert hefur sín sérkenni. Á hverju ári skipa yfirvöld í Kapítól umdæmunum að senda einn strák og eina stelpu að keppa á Hungurleikunum. Keppnin er sýnd í beinni útsendingu um allt land og reglurnar eru einfaldar – sá sigrar sem heldur lífi.
Katniss Everdeen er sextán ára og vekur athygli um allt Panem þegar hún býðst til að taka þátt í Hungurleikunum í stað systur sinnar. Með henni úr Tólfta umdæmi fer bakarasonurinn Peeta. Sjálf á Katniss ekki von á öðru en að hún gangi í opinn dauðann, en sjálfsbjargarviðleitni hennar er meiri en flestra annarra og Peeta leikur leikinn á alveg nýjan máta.
Hungurleikarnir er fyrsta bók í þríleik eftir Suzanne Collins. Bækurnar hafa notið gríðarlegra vinsælda undangengin ár, vermt efstu sæti metsölulista og hlotið bestu meðmæli ritdómara. Kvikmynd gerð eftir fyrstu sögunni verður frumsýnd vorið 2012.

Hroki og hleypidómar
3.990 kr.„Það er kunnara en frá þurfi að segja að piparsvein í góðum efnum hlýtur að vanta eiginkonu,“ segir í frægum upphafsorðum þessarar bókar. Þegar ungur og vel stæður karlmaður flytur í héraðið fara sveitungarnir undir eins að orða hann við stúlku fallegustu heimasætuna í sveitinni. Sú saga hefði fljótlega endað vel ef vinur hans, auðugur piparsveinn úr öðru héraði, hefði ekki farið að skipta sér af þessum ráðagerðum. Í hroka sínum þykir honum stúlkan ekki af nógu góðum ættum fyrir vin sinn og vekur með því heiftarlega hleypidóma systur hennar sem verður honum verðugur andstæðingur.
Hroki og hleypidómar eftir breska rithöfundinn Jane Austen kom í fyrsta skipti út árið 1813 og er einhver frægasta ástarsaga sem skrifuð hefur verið. Fjörug, ögrandi og fyndin leiðir skáldkonan persónur sínar út á dansgólf sögunnar þar sem þær stíga sín þokkafullu spor, ganga frá einum dansfélaga til annars, hring eftir hring, sem smám saman þrengist utan um söguhetjurnar.
Silja Aðalsteinsdóttir þýddi söguna og skrifaði eftirmála um Jane Austen og umhverfið sem sagan er sprottin úr.

Réttarhöldin
3.990 kr.Réttarhöldin eftir Franz Kafka hafa að geyma eitt frægasta sakamál aldarinnar. Helsta einkenni þess máls er að sakborningnum, bankamanninum Jósef K., er ekki ljóst hvað honum er gefið að sök. Hann leitar sífellt skýringa á því sem er að gerast og það er engu líkara en hann þurfi að elta uppi glæpinn, dómarana og örlög sín.
Réttarhöldin komu fyrst út árið 1925, að höfundi látnum, og marka tímamót í nútímabókmenntum. Þessi saga er jafn fersk og áleitin nú og þegar hún kom fyrst út fyrir sjötíu árum, því enn getur sérhver lesandi séð sjálfan sig í grátbroslegum samskiptum Jósefs K. við hinn annarlega heim réttvísi og valds.
Franz Kafka (1883-1924) var þýskumælandi gyðingur, fæddur í Prag, þar sem hann nam lögfræði og starfaði lengstaf á skrifstofu tryggingafyrirtækis, þótt hugurinn væri löngum bundinn ritlistinni. Helstu verk hans, auk Réttarhaldanna, eru Ameríka, Höllin og Hamskiptin.
Þýðing Ástráðs Eysteinssonar og Eysteins Þorvaldssonar á Réttarhöldunum kom fyrst út hjá Menningarsjóði árið 1983 en birtist hér í endurskoðaðri gerð, auk þess sem þeir hafa nú þýtt sex kafla sem höfundur lauk ekki við en segja þó sína sögu.

Doris deyr
1.290 kr.Með Doris deyr kveður Kristín Eiríksdóttir sér hljóðs á eftirminnilegan hátt og smeygir sér af lipurð milli heims og orða. Hér getur að líta manneskjur í allri sinni fegurð og grimmd sem elska, reiðast, harma og vita að mennskan er ekki einungis brothætt heldur líka ósigrandi!
Kristín Eiríksdóttir er í hópi okkar athyglisverðustu ungu höfunda. Sögurnar í þessu fyrsta smásagnasafni hennar eru skrifaðar af næmi og ímyndunarafli og eru í senn vægðarlausar og ríkar af samúð.


Ferðabíó herra Saitos (notuð)
1.990 kr.„Ég var getin á dansgólfi í Buenos Aires árið 1927.“
Þannig hefst saga Litu sem fæðist og elst upp í nunnuklaustri ásamt kornungri móður sinni sem hefur lítinn áhuga á barnauppeldi en elskar tangó og fallega skó. Líf mæðgnanna tekur óvænta stefnu þegar þær þurfa að flýja heimkynni sín og enda óvænt á afskekktri eyju undan ströndum Kanada þar sem þær fá inni á sjómannaheimilinu Betlehem. Smám saman kynnast þær samfélagi eyjarinnar og þar eignast Lita vinkonu í fyrsta skipti, hina heyrnarlausu Oonu McGregor. En þegar herra Saito mætir til eyjarinnar með ferðabíóið sitt opnast nýr ævintýraheimur fyrir Litu og ekkert verður eins og áður.
Annette Bjergfeldt hefur hlotið afar góðar viðtökur fyrir Ferðabíó herra Saitos enda er hér á ferð heillandi saga með óvenjulegu sögusviði og eftirminnilegum persónum.
Jón St. Kristjánsson þýddi.

Diplómati deyr (notuð)
1.990 kr.Hópur kanadískra diplómata verður veðurtepptur í opinberri heimsókn í Vestmannaeyjum, þar á meðal sendiherra Kanada á Íslandi og eiginkona hans. Á meðan óveðrið geisar úti fyrir snæða gestirnir saman hátíðarkvöldverð – en svo hnígur aðstoðarsendiherrann niður fyrir framan viðstadda. Fljótlega kemur í ljós að um morð er að ræða og ýmsir liggja undir grun: athafnamaðurinn sem svífst einskis í samningum, meistarakokkurinn sem reiðir fram dýrindis máltíðir úr nærumhverfinu og dularfulla myndlistarkonan sem er að opna sýningu á byggðasafni bæjarins … svo nokkrir séu nefndir. En sendiherrafrúin er hvergi bangin og ákveður að komast til botns í málinu upp á eigin spýtur.
Diplómati deyr er fyrsta skáldsaga Elizu Reid, spennandi og listilega fléttuð glæpasaga þar sem leyndarmálin eru afhjúpuð hvert af öðru.
Magnea J. Matthíasdóttir þýddi.

Í túninu heima
1.290 kr.„Oft er ég í draumi aftur staddur í þessu túni bernskunnar, Laxnestúninu, og er nú ekki lengur til,“ segir Halldór Laxness í þessari minningasögu. Reyndar hefst sagan á Laugaveginum, sem enn stendur í blóma. Þar fæddist höfundurinn og þaðan eru hans fyrstu minningar. En Laxnestúnið er ímynd liðins heims, sem að vísu sér hindrunarlaust gegnum aftur í fornöld, aftur fyrir tímann, en er þó fyrst og fremst hinn epíski, íslenzki sveitaheimur 19. aldar, sem ég fyrir mitt leyti þekki bjartastan úr bókum Páls Melsteðs, þó að þær eigi að heita þýðingar og gerast í útlöndum. Á mótum þessa heims og nútímans tekur frásögnin viðmiðanir sínar. Og vel á minnzt: það eru aðrar fráleitari leiðir til nokkurs skilnings á Halldóri yfirleitt en að líta á hann frá þessum vegamótum. Frásögninni lýkur, þegar „strákurinn í Laxnesi“ heldur á stað út í heim til Reykjavíkur að leggja stund á tónlist og myndlist. En áður en þessi umgjörð tíma og landafræði lokast, hefir Halldór farið með oss um allar jarðir í hugmyndaheimi sínum. Auk margra smágjörðra, ógleymanlegra mannlýsinga eru mér af einstökum atriðum hugstæðastar athugasemdir hans um höfunda og bókakost á þessum tíma. Sérstaklega langar mig að taka undir viðurkenningu hans á Jóhanni Magnúsi Bjarnasyni og lofsyrðum um þýðingarnar gömlu í vestanblöðunum.
Ef til vill ætti heldur að tala um mismunandi fjarlægðir frá sjónarmiði höfundar en tímatal í sambandi við þessa bók. Á einum stað í bókinni drepur Halldór á það, að öllu máli skipti að vanda smáatriðin í list, hið stóra sjái um sig. Það á við hér. Ég ætla að leyfa mér að bæta því við til athugunar við lestur þessarar bókar, að „réttar“ fjarlægðir séu annað skilyrði vissrar frásagnarlistar og að bókin staðfesti það. En leikur að fjarlægðum er, eins og vér þekkjum, eitt áhrifamikið höfundareinkenni Halldórs Laxness.
K. K.

Eldar kvikna
1.290 kr.Eftir að hafa sigrað í Hungurleikunum og skilað bæði sér og Peeta, félaga sínum úr Tólfta umdæmi, heim í heilu lagi ætti Katniss að vera himinlifandi. Hún flytur inn í Sigurþorp, þarf aldrei framar að óttast hungur og getur aftur farið á veiðar með æskuvininum Gale.
En ekkert er eins og það á að vera: Gale er gerbreyttur, Peeta snýr við henni baki og vaxandi ólga í Panem veldur áhyggjum. Í sigurvegaraferðinni verða Katniss og Peeta að kæfa allar uppreisnartilraunir í fæðingu – hvort sem þau kæra sig um það eða ekki – annars er miklu meira í húfi en nýfengið ríkidæmi og þægindi.
Eldar kvikna er önnur bókin í þríleik Suzanne Collins um Hungurleikana sem farið hefur sigurför um heiminn. Hér kemur hún lesendum á óvart hvað eftir annað svo engin leið er að leggja bókina frá sér fyrr en að lestri loknum.
Guðni Kolbeinsson þýddi.

Göngulag tímans
1.290 kr.Aðalpersóna þessarar bókar, John Franklin, er söguleg persóna sem á sinni tíð (1786-1847) var frægur sæfari og landkönnuður. Hann dreymir frá blautu barnsbeini um að komast á sjóinn en virðist þó illa til þess fallinn því hann er einkar hægur í tali og hugsun og öllum viðbrögðum og leggur annan mælikvarða á tímann en flestir í kringum hann. John kemst þó í sjóherinn er fram líða stundir, lendir í orustunum við Kaupmannahöfn og Trafalgar og virðir fyrir sér hraða og skelfilega framvindu átakanna með sinni sérstöku hægð. Síðar bíða hans og félaga hans ótrúlegar mannraunir í könnunarleiðöngrum á norðurhveli jarðar.
Þessi líflega frásögn er öðrum þræði sjóferðasaga og þroskasaga en er ekki síður ógleymanleg athugun á eðli tímans og ægivaldi hraðans. Hún gefur lesandanum hlutdeild í þeirri einstæðu reynslu sem veitist hinum hægláta.
Sten Nadolny er þýskur höfundur, fæddur árið 1942 og er búsettur í Berlín. Hann hefur skrifað nokkrar skáldsögur en langþekktust þeirra er Göngulag tímans sem þýdd hefur verið á fjölmörg tungumál.
Arthur Björgvin Bollason þýddi bókina.

Vetrargulrætur
990 kr.Fimm knýjandi sögur sem fara með lesandann í tímaferðalag frá samtíma aftur á átjándu öld.
Í úthverfi Reykjavíkur týnir kona barni og glímir við afleiðingar þess; ungur málari grípur til ör-þrifaráða þegar kærasta hans sekkur í þunglyndi; myndlistarkona finnur sína leið þrátt fyrir þöggun; og flóttakona frá Þýskalandi tekst á við sköpunar-kraft sinn í nýju umhverfi. Í fimmtu og síðustu sögunni, um ungling sem á sér einn draum heit-astan, birtist kjarni sagnanna fimm: Þvert á tíma og rúm eiga persónurnar það sameiginlegt að rækta drauma sína og skapa eigið líf.


Vertu úlfur
990 kr.„Ég var hamrammur, maður í úlfsham, vargur, útlagi. Kraftar mínir voru kraftar úlfsins… Orðið vargur hefur enda tvöfalda merkingu: Úlfur og guðlaus maður. Eða einfaldlega útlagi. Wargus esto.“
Þessi bók geymir magnaða frásögn af ferðalagi manns inn í heim stjórnleysis, heim sem sumir þekkja, margir óttast en allir ættu að leitast við að skilja betur. Saga Héðins Unnsteinssonar er öðrum þræði sigursaga en líka saga um baráttu við fordóma, kerfið og jafnvel tungumálið sjálft. Hvað er annars að vera heilbrigður? Hvernig losnar maður við „sjúk-dóm”?
Vertu úlfur er einlæg, gagnrýnin og hispurslaus frásögn af falli og upprisu manns sem eitt sinn var greindur með geðhvörf.
Héðinn hefur starfað á sviði geðheilbrigðismála í tvo áratugi, sem sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu og hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, auk þess sem hann hefur kennt, haldið fyrirlestra og skrifað fjölda greina um þessi mál.

Blóðug jörð
1.290 kr.Árið er 883. Veldi norrænna manna á Bretlandseyjum riðar til falls og Þorsteinn rauður berst við að halda velli á Katanesi þar sem innfæddir gerast æ herskárri. Lífið er hverfult og enginn veit Urðar hug. A augabragði stendur Auður Ketilsdóttir ein uppi, umkringd óvinum og ábyrg fyrir ungum sonarbörnum. Stefnan er tekin til eylandsins á enda veraldar þar sem ár og vötn eru sögð iða af fiski, jökulhettur ber við himin og sjálf jörðin spyr eldi.
Á suðurströnd Íslands hafa þrælar gert uppreisn og goldið grimmilega fyrir. Nýja landið er vigt blóði. Einn kemst lífs úr þeim hildarleik: maður sem á harma að hefna á ætt Dyflinnarkonungs.
Vilborg Davíðsdóttir lýkur hér þríleiknum um landnámskonuna Audi djúpúðgu með Blóðugri jörð, sjálfstæðri sögu um siglinguna yfir hafið. Fyrri bækurnar tvær, Auður og Vígroði, hlutu fádæma góðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda og var sú fyrri tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Morgunn í maí
1.990 kr.„ . . . Ég orti þetta nánast í einni lotu, því ég vissi að ef ég hefði hætt í miðjum klíðum þá hefði ég ekki getað haldið tóninum. Afturámóti hefur þessi bók verið í mér lengur en nokkur önnur sem ég hef skrifað. Ég hef eiginlega verið að yrkja þessi ljóð í upp undir tuttugu ár eða frá því fyrsta ljóðabókin mín, Borgin hló, kom út árið 1958. Ástæðan til þess að ég hef ekki lagt út í að glíma við þetta verkefni fyrr en nú er sú, að ég varð að yrkja áður þær bækur sem ég hef nú gefið út til þess að geta fundið þann tón, sem ég tel að hæfi þessum ljóðaflokki . . .
Á þessum árum hrundi veröldin í kringum okkur. Það gamla stóðst ekki þau átök sem þarna urðu og fæðingarhríðirnar urðu meiri en áður, þegar nýr tími hefur fæðst. Þessi nýi tími spratt úr óhugnanlegasta harmleik sem mannkynssagan þekkir. Okkur fannst því ástæða til að binda miklar vonir við það sem á eftir kæmi. En þessar vonir hafa einatt verið vonbrigði. Kannski vegna þess að það var gerð atlaga gegn mörgu því besta sem við höfðum fengið í arf, verðmætum sem hefði verið ástæða til að hlú betur að. En um það var ekki hugsað. Menn voru svo uppteknir af að byggja upp nýja veröld eftir stríðið. Í þessu stríði og þeim hrunadansi sem fylgdi í kjölfarið urðu sem sagt margvísleg gömul verðmæti að engu. Þeirra á meðal var hefðbundið íslenskt ljóðform sem var að vísu byrjað að úreldast og staðna, og gat ekki sótt endurnýjun í annað en andstæðu sína. Það er gömul saga. Þessi ljóðabók mín, Morgunn í maí, fjallar um þennan tíma, og það hefði verið fölsun frá minni hendi að yrkja hana í formi sem var með öllu andstætt andrúmi íslensks þjóðfélags um þetta leyti. Ég gat hvorki ort hana í hefðbundnu íslensku ljóðformi né óbundnu formi. Ég varð að finna nýtt form sem umgjörð um lífið í þessum ljóðum. Ég hef því leitað að fyrirmyndum bæði í formi nýs og gamals tíma. Andspænis gengishruninu reyni ég að halda mér í einn og einn stuðul eða eitt og eitt rímorð, svona einsog þegar maður nær taki á snös í fallinu og handlásar sig svo upp á brúnina aftur . . . En nú höfum við Erró leitað saman að þessum tíma…“
Úr samtali Árna Þórarinssonar við M. J. í Vísi, okt. 1977.

Þrír sneru aftur
1.290 kr.„Menn leita að orku í stríði og friði, lífið þrífst á orkunni í okkur sjálfum og í náttúrunni, sagði gamli maðurinn vesældarlega.“
Á einangraðan stað suður með sjó, þar sem aldrei gerist neitt, berast fregnir af átökum heimsstyrjaldarinnar. Fyrr en varir hefur atburðarásin teygt anga sína þangað og nútíminn heldur innreið sína með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Höfundur dregur upp hárbeitta mynd af samfélagi á tímamótum; af eilífri baráttu manneskjunnar fyrir tilveru sinni, glímunni við fáfræði og fásinni, sannleika og lygi, heimsku og græðgi.
Og sagan endurtekur sig stöðugt við nýjar og breyttar aðstæður, kynslóðir koma og fara … en ættarfylgjan lætur ekki að sér hæða, enginn flýr frá sjálfum sér.
Guðbergur Bergsson hefur skrifað fjölmargar bækur, þýtt öndvegisrit og ritað greinar í blöð og tímarit. Hann hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin og verðlaun Sænsku bókmenntaakademíunnar.
Guðbergur Bergsson lauk prófi í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona 1958. Fyrsta bók hans, Músin sem læðist, kom út 1961. Hann hefur skrifað barnabækur, ljóð, smásögur, skáldsögur, skáldævisögur og greinar um bókmenntir, listir og þjóðfélagsmál í dagblöð og tímarit bæði hér á landi og í útlöndum. Hann er afkastamikill þýðandi og hefur átt sinn þátt í því að kynna fyrir Íslendingum spænskar og portúgalskar bókmenntir. Margar bækur Guðbergs hafa verið þýddar á erlend tungumál.



