
Grænmetisætan
4.590 kr.Hin suður-kóreska Han Kang hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2024 fyrir ,,ákafan ljóðrænan prósa sem tekur á sögulegum áföllum og afhjúpar viðkvæmni mannlífsins.“ Áður hafði hún meðal annars hlotið Man Booker-verðlaunin árið 2016 fyrir Grænmetisætuna sem farið hefur sigurför um heiminn.
Bókin kom fyrst út á íslensku árið 2017 og hlaut mikið lof. Meðal annars völdu bóksalar hana sem bestu þýddu skáldsögu ársins. Han Kang var gestur á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík sama ár. Grænmetisætan er endurútgefin í tilefni af Nóbelsverðlaununum.
Yeong-Hye og eiginmaður hennar lifa afar venjulegu lífi. Hann vinnur á skrifstofu en hún sinnir húsmóðurhlutverkinu af skyldu fremur en áhuga.
Dag einn ákveður hún að gerast grænmetisæta. ,,Mig var að dreyma,“ er eina skýringin sem hún gefur – í samfélagi þar sem það er bæði hneyksli og skammarlegt að borða ekki kjöt.
Ingunn Snædal þýddi.

Hús dags, hús nætur
4.590 kr.Nowa Ruda er lítið þorp í Slesíu, landsvæði í Mið-Evrópu sem hefur verið hluti af Póllandi, Þýskalandi og fyrrum Tékkóslóvakíu í gegnum tíðina. Þegar sögumaður flytur til þessa þorps uppgötvar hún að allt þarna á sér sögu, og með aðstoð Mörtu, hins dularfulla nágranna síns, streyma sögurnar fram – til dæmis af lífi dýrlingsins sem bærinn dýrkar, af manninum sem vinnur allar spurningakeppnir í útvarpinu á hverjum degi og af þeim sem olli alþjóðlegri spennu með því að deyja á landamærunum, með annan fótinn á pólskri grund en hinn á tékkneskri. Sérhver saga er eins og múrsteinn í sögu bæjarins sem smám saman hlaðast upp og spegla enn stærri mynd.
Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eftir Olgu Tokarczuk sló eftirminnilega í gegn hér á landi árið 2022. Olga fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2018.
Árni Óskarsson þýddi.
