
Staðreyndirnar
8.690 kr.Við erum ekki á leiðinni í neitt 1984-dæmi, skilurðu. Við erum ekki að fara að banna fólki að segja eitt né neitt. Og við ætlum ekki að fara að þurrka út allar óþægilegar staðreyndir, breyta sögunni jafnóðum og einhverjir hagsmunir krefjast þess.
Eftir hneykslið með hjartað er úti um framtíð Steins í stjórnmálum. Honum er því boðin staða hjá nýstofnaðri Upplýsingastofu og falið að leiða þróun opinbers staðreyndagrunns, vitvélar sem á að gegna lykilhlutverki í baráttu stjórnvalda gegn upplýsingaóreiðu. Verkefnið lofar góðu þar til háskólanemi ber upp eldfima spurningu við vélina um áhrif nasisma á stjórnarfar á Íslandi.
Staðreyndirnar er hárbeitt satíra um ólík tilbrigði við þögn, um uppgjöf andspænis voðaverkum, uppgjör sem aldrei fer fram og þolinmæði þeirra afla sem enn bíða þess í ofvæni að lýðræðis- og frelsisbylgju síðustu áttatíu ára ljúki. Skáldsaga um vélrænt vit, mannasiði og nasista.

Drungabrim í dauðum sjó
8.690 kr.Hallgrímur Helgason, okkar þróttmikla þjóðskáld, hefur tekið saman kvæðasafn safn háttbundinna ljóða sinna frá síðustu kvartöld. Hér mætast hið persónulega og pólitíska, innileiki og ádeila, mýkt og harka í skáldskap sem kviknar jafnt af barneignum og jarðarförum sem og bankahruni og þjóðarmorði. Skáldið bruggar seið úr hefðum fortíðar og kenndum samtíðar og blandar ýmist með húmor eða trega. Bókin er ríkulega myndlýst af Hallgrími sjálfum.

Sjá dagar koma
8.690 kr.Salvar Bernódusson er föðurlaus niðursetningur á kotbýli í Dýrafirði, unglingur með stóra drauma, táp og þor. Deyfð og drungi sem hvílir yfir þjóðlífinu í kjölfar harðinda og vesturferða er eitur í hans beinum og hann dreymir um framfarir, stórhug og stolt.
Úti við sjónarrönd sjá Vestfirðingar glæsileg amerísk seglskip á lúðuveiðum og óvænt kemst Salvar í pláss á slíku skipi. Þar með hefst hans bjarmalandsför yfir höf og lönd; slyppur og snauður heldur hann til Ameríku og snýr þaðan aftur vellauðugur, unir sér ekki heima en heldur til Englands og kemst þar í kynni við mann að sínu skapi; stórskáldið og athafnamanninn Einar Ben.
Fjörug og bráðskemmtileg saga um bjartsýna menn og hnípna þjóð við upphaf 20. aldar, þróttmikinn ungmennafélagsanda og framfaraþrá. Einar Kárason kann að segja þannig frá að persónur og atburðir lifni við og sögusviðið opnist og hér fá lesendur ríkulega að njóta þeirrar gáfu sagnamannsins slynga.

Mín er hefndin
8.690 kr.Þegar Bergþóra í Hvömmum kemur að líki á víðavangi sér hún strax að manninum hefur verið ráðinn bani. Hún veit líka að ýmsir sveitungar hennar báru heiftarhug til hans. Nokkru áður höfðu farið fram réttarhöld í Hvammahreppi þar sem blásnauðir einstaklingar hlutu óbærilega þungar refsingar fyrir litlar sakir. Margir eiga harma að hefna og fleiri gætu verið í hættu en sá sem liggur á grúfu frammi fyrir Bergþóru í fyrsta snjó vetrarins.
Mín er hefndin er sjálfstætt framhald Þegar sannleikurinn sefur þar sem áfram er fjallað um glæparannsóknir og ástarmál húsfreyjunnar í Hvömmum. Um leið er ljósi varpað á siðferði og réttarfar 18. aldar, ekki síst þann aðstöðumun sem eignir og ætterni sköpuðu fólki þegar refsivöndur laganna vofði yfir.
Nanna Rögnvaldardóttir hefur löngum verið einn virtasti matreiðslubókahöfundur landsins en á undanförnum árum hefur hún einbeitt sér að því að skrifa sögulegar skáldsögur sem njóta síst minni vinsælda.

Hvalbak
5.190 kr.Hvalbak er önnur ljóðabók Maó Alheimsdóttur. Skáldsaga hennar, Veðurfregnir og jarðarfarir, vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2024 en hún er fyrsta frumsamda sagan sem kemur út á íslensku eftir höfund sem lærði málið á fullorðinsaldri. Einstök ljóðabók þar sem greina má nýtt og ferskt sjónarhorn á íslenska náttúru og tungu.

Postulín
5.190 kr.Postulín er áhrifamikil ljóðabók um hamfarir, bæði þær sem ryðjast fram af slíku offorsi að þær setja mark sitt á allt samfélagið og þær persónulegu sem fæstir heyra nokkurn tímann af.
Postulín er önnur ljóðabók Sunna Dísar Másdóttur en sú fyrri, Plómur, kom út árið 2022 og var tilnefnd til Maístjörnunnar. Ári síðar hlaut Sunna Ljóðstaf Jóns úr Vör. Fyrsta skáldaga hennar, Kul, kom út 2024. Ásamt höfundakollektífinu Svikaskáldum hefur Sunna gefið út fjórar ljóðabækur og skáldsöguna Olíu sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Og þaðan gengur sveinninn skáld
7.490 kr.Thor Vilhjálmsson (1925–2011) var einn frumlegasti og áhrifamesti höfundur okkar á síðari hluta síðustu aldar og fram á þessa, auk þess sem hann var óþreytandi menningarfrömuður og áberandi í þjóðlífinu.
Í tilefni þess að öld er liðin frá fæðingu Thors minnast samferðamenn, fræðimenn, þýðendur og aðrir rithöfundar hans, hver frá sínum sjónarhóli, og varpa ólíku ljósi á þennan flókna höfund og margbrotna persónuleika. Hér eru stuttar svipmyndir, fræðilegar úttektir, ljóð og teikningar. Synir Thors, Örnólfur og Guðmundur Andri, söfnuðu greinunum og völdu einnig stutta texta úr verkum hans sem birtir eru á milli greinanna. Innleggin eru á fjórða tug og að auki er í bókinni fjöldi mynda.

Áður en hrafnarnir sækja okkur: Ljóðaúrval
5.190 kr.Knut Ødegård gaf út fyrstu ljóðabók sína árið 1967 og skipaði sér fljótt í hóp virtustu ljóðskálda Noregs. Hann hefur sent frá sér á fjórða tug frumsaminna bóka, ljóð, skáldverk og fræðirit, auk fjölda þýðinga, meðal annars úr íslensku.
Ljóðin í Áður en hrafnarnir sækja okkur koma úr ýmsum áttum en eiga það sameiginlegt að þar talar roskinn ljóðmælandi sem rýnir gjarna í eigið líf nú og þá en fjallar líka um náttúruna, heimsmálin og ástina. Gerður Kristný þýddi ljóðin úr norsku.

Bréf til Láru – Afmælisútgáfa með skýringum
4.690 kr.„Bréf til Láru hefur kannski haft meiri áhrif en nokkur önnur bók, sem rituð hefur verið á íslenska tungu. … Hún verkaði eins og sprenging, sem molaði niður ýmsar villukenningar og úreltar hugmyndir. Fyrir þá, sem sprenging þessi var lausn, var hún gleðiboð – skapur, en [fyrir hina], sem fundu stuðning í villukenningunum og hinum úreltu hugmyndum, var hún hræðileg bók og höfundurinn vitlaus maður.“
Þannig lýsir Þórbergur Þórðarson bók sinni, Bréfi til Láru, sem kom fyrst út árið 1924 en oft síðan. Bókin olli miklu fjaðrafoki og deilum en boðaði um leið nýja tíma í íslenskum bókmenntum. Ýmsum sveið undan hárbeittum skotum höfundar en þó er það ekki síst stórkostleg sjálfslýsing hans sem gerir Bréf til Láru að sígildri bók. Óborganlegur húmor Þórbergs nýtur sín til fulls í ádeilum hans og skopi sem hann beinir í allar áttir og ekki síst að sjálfum sér.
Þetta einstæða meistaraverk kemur nú út í nýrri útgáfu á hundrað ára afmæli bókarinnar. Soffía Auður Birgisdóttir ritar inngang og tekur saman ítarlegar skýringar á mönnum og málefnum sem Þórbergur víkur að og opnar nýjum lesendum þannig dyr inn í galskapinn.
