
Illska
990 kr.Agnes Lukauskaite og Ómar Arnarson kynnast snemma á nístingsköldum sunnudagsmorgni í leigubílaröðinni í Lækjargötu. Þremur árum síðar brennir hann heimili þeirra til grunna, keyrir til Keflavíkur og flýgur úr landi.
Sagan hefst raunar löngu fyrr, sumarið 1941, þegar helmingi bæjarbúa litháíska smábæjarins Jurbarkas var slátrað í skógunum í kring. Tveir langafar Agnesar voru þar – annar skaut hinn. Þremur kynslóðum síðar hefur Agnes gert helförina að miðpunkti lífs síns og sú þráhyggja leiðir hana á fund ísfirska nýnasistans og menntamannsins Arnórs.
Illska er bók um helförina og bók um ástina, um Ísland og Litháen, um Agnesi sem glatar sjálfri sér á milli þess sem Jón Baldvin viðurkennir sjálfstæði Eystrasaltslandanna og litháískir glæpamenn taka að starfa í Reykjavík, um Agnesi sem veit ekki hvort hún heldur með b-heimsmeisturunum í handbolta eða Bogdan Kowalczyk, um Agnesi sem elskar Ómar sem elskar Agnesi sem elskar Arnór.
Eiríkur Örn Norðdahl er einn framsæknasti höfundur sinnar kynslóðar og hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín, bæði ljóð og skáldsögur.
Illska hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2012 og bóksalar kusu hana bestu skáldsögu ársins.

Fimm ljóð
5.190 kr.Engin sjoppa er betri
en pylsan sem hún selur.
Segir hún.
Og í þessum sjoppum
er alls staðar seld
sama pylsan.
Alltaf með engu, svarar hann,
og alltaf með öllu.
Eiríkur Örn Norðdahl (f. 1978) er ötull og framsækinn höfundur, búsettur á Ísafirði, og einn af upphafsmönnum skáldahópsins Nýhil. Auk ljóða hefur hann sent frá sér leikrit, ritgerðir, þýðingar og níu skáldsögur. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Náttúrulögmálin og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Illsku en sú bók var líka tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Fimm ljóð er áttunda ljóðabók Eiríks Arnar en átta ár eru liðin frá því að sú síðasta, Óratorrek, kom út.

Náttúrulögmálin
1.990 kr.Náttúrulögmálin er söguleg skáldsaga þar sem brugðið er á leik með heimildir og staðreyndir svo úr verður karnivalísk og bráðskemmtileg frásögn af kaupstaðarlífi Ísafjarðar á miklum umbreytingatímum í sögu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar.
Snemmsumars árið 1925 kallar yngsti, fegursti og jafnframt óviljugasti biskup Íslands, séra Jón Hallvarðsson, til prestastefnu á Ísafirði. Megintilgangurinn virðist vera að storka þjóðtrú landans og sýna mátt kristindómsins frammi fyrir hindurvitnum, spíritisma og náttúruöflum. En með uppátæki sínu hleypir biskup af stað ófyrirsjáanlegri sjö daga atburðarás þar sem náttúra staðarins kallast á við náttúru mannsins.






