
Æskumynd listamannsins
3.990 kr.ÆSKUMYND LISTAMANNSINS kom fyrst út árið 1916 og er persónulegasta verk James Joyce. Bókin sem sumir gagnrýnendur hafa nefnt mögnuðustu æskulýsingu heimsbókmenntanna greinir frá uppvexti drengs í hinu rammkaþólska Írlandi, þjáningum hans í forstokkuðu skólakerfi, unglingsárum með tilheyrandi sektarkennd og ástarfýsn, baráttu hans við að brjótast undan hömlum umhverfisins, finna sjálfan sig og komast burt. „Skáldsagan er ákæruskjal,“ segir Sigurður A. Magnússon í formála sínum að verkinu, „sem beinist jafnt gegn rómversk-kaþólsku kirkjunni og fósturjörðinni.“
Sigurður A. Magnússon hefur þegar unnið það þrekvirki að þýða á íslensku Ulysses – Ódysseif – eftir James Joyce, margslungnustu skáldsögu 20. aldar og kom sú þýðing út á árunum 1992-3, en áður hafði smásagnasafnið Í Dyflinni komið út í íslenskri þýðingu Sigurðar árið 1982.

Meistari Jim
1.990 kr.Hann var kallaður Tuan Jim, Meistari Jim, en þá nafnbót fékk hann ekki fyrr en hann var sestur að á afskekktri eyju í Austur-Indíum. Þar var hann dáður sem friðflytjandi og réttlátur stjórnandi hinna innfæddu, en saga hans fólst ekki í þessum afrekum: hún bjó í mistökum hans, í því að hafa brugðist á hættustund. Eins og þúsundir annarra ungra manna í Evrópu hafði Jim orðið sjómaður í kaupskipaflota nýlenduveldanna, knúinn áfram af hugsýn um mikil ævintýri og stórkostlegar hetjudáðir, en þegar á hólminn kom brást hann og upp frá því var ævi hans einn samfelldur flótti undan lydduorðinu sem af honum fór.
Joseph Conrad (1857-1924) hét upphaflega Jozef Teodor Konrad Korzeniowski, sonur pólskra landeigenda sem rússnesk yfirvöld sendu í útlegð til afskekkts bæjar þar sem foreldrar hans létust meðan hann var barn að aldri. Sautján ára fór hann á sjóinn og í nærri tvo áratugi sigldi hann um öll heimsins höf. Hann varð breskur ríkisborgari og hóf að skrifa sögur á ensku sem flestar byggjast á reynslu hans af sjómennsku og nýlenduásælni Evrópumanna, sögur sem einkennast af orðkynngi og frumlegri sögutækni.
Atli Magnússon þýddi.

Utz
1.290 kr.Kaspar Utz á óviðjafnanlegt safn af Meissenpostulíni, matarílát og skrautmuni, sem honum hefur tekist að varðveita á tímum margvíslegra ógna. Hann er aðalsmaður af gamla skólanum, sem býr með postulínssafni sínu og þjónustustúlku í tveggja herbergja íbúð sinni í Prag. Sögumaður kemur á fund hans og verður margs vísari um merkileg örlög á umbrotatímum.
Bruce Chatwin lýsir hér sálarlífi ástríðusafnarans og afdrifum gamals og sérkennilegs menningararfs í stalínisma eftirstríðsáranna. Þar spinnist inn sögur um evrópskan aðal, um gyðinga og skriffinna kommúnismans. Chatwin er næmur höfundur, og hann hefur óvenjulega og auðuga kímnigáfu.
Unnur Jökulsdóttir og Þorbjörn Magnússon þýddu.

Heimur feigrar stéttar
1.290 kr.Sögusviðið er Suður-Afríka í ólgu sjötta og sjöunda áratugarins. Söguna segir Liz Van Den Sandt, hvít millistéttarkona. Fyrrum eiginmaður hennar, vanmáttugur og ráðvilltur uppreisnarmaður, hefur fyrirfarið sér. Liz verður hugsað til lífs þeirra saman og baráttu gegn aðskilnaðarstefnunni.
Hvernig er að vera hvít kona í Suður-Afríku á umbrotatímum sem ekki sér fyrir endann á? Er nóg að vilja vel? Er hægt að leiða kúgunina hjá sér? Verður sá sem tekur afstöðu einnig að hafa kjark til að gera eitthvað í málunum?
Þessi bók kemur við kvikuna í hinu margklofna þjóðfélagi Suður-Afríku frá sjónarmiði þess hluta hvíta forréttindahópsins sem finnur að samviskan er svört.
Ólöf Eldjárn þýddi.

Óbærilegur léttleiki tilverunnar
1.290 kr.Hvað gerir maður þegar fallega þjónustustustúlkan á hótelinu úti á landi stendur allt í einu á tröppunum hjá honum í borginni með hafurtask sitt og er bara komin…? Tómas er góður læknir og ennþá betri kvennamaður og ákveður að hleypa hinni ástföngnu Teresu inn í líf sitt. En framhaldið er ekki á hans valdi – þau eru leiksoppar sögunnar, fórnarlömb ytri afla eins og heimaland þeirra, Tékkóslóvakía. Örlög þess í greipum grannans í austri fléttast óviðráðanlega saman við örlög persóna bókarinnar. Samt er þetta engin harmsaga: Óbærilegur léttleiki tilverunnar er full af óvæntri gamansemi og lýsir samhengi stjórnmála, kynlífs og dauða með grátbroslegum hætti. Léttleiki frásagnarinnar og frelsi draumsins verður athvarf mannshugans andspænis óbærilegum lögmálum sögunnar.
Friðrik Rafnsson íslenskaði.



Hlálegar ástir
1.990 kr.Hvað gerist þegar fólk tekur sér ný gervi í stundarléttúð og leikur annarleg hlutverk í kynlífsleiknum án þess að hugsa það til enda eða gera sér grein fyrir afleiðingunum? Eða þegar karlmaður gerir sér upp trúarhita til að vinna hug og hjarta konu? Eða þegar listasögukennari kemur sér ekki að því að gefa umsögn um akvonda grein um myndlist?
Milan Kundera fer á kostum í þessum sjö smásögum og skoðar margar viðkvæmustu hliðar mannlífsins í spéspegli, en meðal viðfangsefna hans eru ást og kynlíf, sýnd og reynd, einstaklingsbundinn húmor í húmorslausu samfélagi og sjálfsvirðing einstaklingsins.
Smásögurnar komu fyrst út í Prag árið 1968 og gerast allar á sjöunda áratugnum, því skeiði sem nefnt hefur verið Vorið í Prag, skeiði frelsis og léttlyndis sem lauk snarlega þegar Rússar gerðu innrás í Prag, skömmu eftir að þessi bók kom út. En svo djúpt skyggnist Kundera í mannlegt hlutskipti að sögurnar gætu sem hægast gerst í nútímanum.
Auk Óbærilegs léttleika tilverunnar er Hlálegar ástir sú bók Kundera sem mestra vinsælda hefur notið víða um heim.




