
Ósmann
8.690 kr.Um aldamótin 1900 voru mörg stórfljót landsins enn óbrúuð og fólk reiddi sig víða á ferjumenn til þess að komast yfir illfær og óútreiknanleg fallvötnin. Einn þeirra var Jón Ósmann sem flutti menn og skepnur yfir Héraðsvötn um fjögurra áratuga skeið. Jón var tröll að burðum, stórtækur sel- og fiskveiðimaður, guðsmaður, drykkjumaður og annálað skáld. En öðru fremur var hann mannvinur með meyrt hjarta sem sá lengra en nef hans náði. Örlögin fóru óblíðum höndum um þennan einstaka karakter og hann lést fyrir aldur fram.
Ósmann er skáldsaga byggð á ævi Jóns Magnússonar, ferjumanns í Skagafirði. Frásögnin er feiknavel skrifuð, hjartnæm og heillandi – sannkallaður yndislestur.
Joachim B. Schmidt (1981) er fæddur og uppalinn í Sviss en hefur búið á Íslandi í nær tvo áratugi. Hann skrifaði sig inn í hjörtu lesenda með bókum sínum um Kalmann á Raufarhöfn en þær hafa verið þýddar á fjölda tungumála og báðar hlotið ýmsar tilnefningar og verðlaun.
Bjarni Jónsson þýddi.
Útreiðartúrinn
8.690 kr.Útreiðartúrinn er áhrifarík samtímasaga með djúpar rætur í fortíðinni. Þetta er saga af flóknu feðgasambandi og af vináttu sem ekki er öll þar sem hún er séð; ljúfsárt og heillandi ferðalag um gamlar og nýjar slóðir.
Sævar er myndskreytir og nýfluttur með fjölskyldu sína út á Álftanes, þar sem hann sækir myndefni sitt í lífríki fjörunnar. Hann kann strax vel við sig í kyrrðinni og náttúrufegurðinni en Pétur, sonur hans á unglingsaldri, er ósáttur við breytinguna og lengur að sætta sig við nýtt umhverfi. Pétur er mátulega búinn að eignast vini og farinn að blómstra þegar hópur drengja gerir fólskulega árás á þá félagana að kvöldlagi og slasar besta vin hans.
Lögreglan tekur í kjölfarið við rannsókn málsins en lítið gengur að upplýsa það. Sævar er bugaður af áhyggjum af syni sínum en árásin rifjar auk þess bæði upp tregablandna sumardvöl Sævars sjálfs hjá afa sínum og ömmu á nesinu á níunda áratugnum og morðmál frá 19. öld sem forfaðir hans var flæktur í. Þá skýtur skyndilega upp kollinum á netinu myndband af árás drengjanna og málið tekur óvænta og óhugnanlega vendingu.

Djöflarnir
4.690 kr.Hvað ef maðurinn missir trúna, hafnar Guði og gefur sig djöflum á vald? Hópur róttæklinga setur allt á annan endann í rússneskum smábæ á ofanverðri 19. öld ‒ markmið þeirra er bylting og samsærið hverfist um hina myrku en segulmögnuðu aðalpersónu, Níkolaj Stavrogín, og hina slóttugu hjálparhönd hans, Pjotr Verkhovenskí.
Skáldsaga Fjodors Dostojevskís kom út í tímariti á árabilinu 1871–1872 og er hans pólitískasta og umdeildasta verk. Kveikja þess var raunverulegur atburður, hrottalegt morð á ungum manni sem átti sér stað 1869 og tengdist hópi stjórnleysingja. Höfundur kafar ofan í sálardjúp sögupersóna sinna og hugmyndastrauma samtímans – stjórnleysi, tómhyggju og sósíalisma – en þrátt fyrir þessa djúpu undiröldu eru Djöflarnir ein fyndnasta bók Dostojevskís, full af fáránlegum uppákomum og spaugilegum karakterum.
Djöflarnir eru spásögn um örlög Rússlands á 20. og 21. öld, kristalskúla sem sagði fyrir um rússnesku byltinguna og það verk Dostojevskís sem á einna brýnast erindi við okkur í dag.

Fimm ljóð
5.190 kr.Engin sjoppa er betri
en pylsan sem hún selur.
Segir hún.
Og í þessum sjoppum
er alls staðar seld
sama pylsan.
Alltaf með engu, svarar hann,
og alltaf með öllu.
Eiríkur Örn Norðdahl (f. 1978) er ötull og framsækinn höfundur, búsettur á Ísafirði, og einn af upphafsmönnum skáldahópsins Nýhil. Auk ljóða hefur hann sent frá sér leikrit, ritgerðir, þýðingar og níu skáldsögur. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Náttúrulögmálin og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Illsku en sú bók var líka tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Fimm ljóð er áttunda ljóðabók Eiríks Arnar en átta ár eru liðin frá því að sú síðasta, Óratorrek, kom út.


Safnið – Ljóð Lindu Vilhjálms
8.490 kr.Ljóðasafn Lindu Vilhjálmsdóttur geymir allar ljóðabækur hennar frá árabilinu 1990‒2022, níu talsins, auk nokkurra ljóða sem birst hafa á öðrum vettvangi eða eru áður óbirt.
Allt frá því að fyrsta bók Lindu, Bláþráður, kom út árið 1990 hafa beinskeytt og meitluð ljóð hennar um samtíð og samfélag, vald og viðhorf, vakið athygli og hreyft við lesendum. Fyrir ljóðabókina Frelsi, sem Linda sendi frá sér árið 2015, var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Inngangsorð bókarinnar skrifar Kristín Eiríksdóttir skáld og í bókarlok er viðtal Hauks Ingvarssonar, bókmenntafræðings og skálds, við Lindu þar sem hún segir frá uppvexti sínum og ævi, skáldskap og skoðunum.
